Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. febrúar. 2007 02:00

Vegur um Grunnafjörð ekki á langtímaáætlun

Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun áranna 2007-2018, sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, lagði fram í vikunni er ekki gert ráð fyrir lagningu vegar um Grunnafjörð þrátt fyrir áralanga baráttu sveitarstjórnarmanna fyrir vegagerðinni. Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns var gert ráð fyrir umræddum vegi í aðalskipulagi Skilmannahrepps og Leirár- og Melahrepps sem nú hafa sameinast öðrum sveitarfélögum í Hvalfjarðarsveit. Umhverfisráðherra hefur frestað staðfestingu skipulagsins vegna andstöðu Umhverfisstofnunar við vegagerðina.

 

Á fundi á Akranesi árið 2005 sagði Sturla Böðvarsson að hann teldi eðlilegt að hugmyndir um lagningu vegar við Grunnafjörð yrðu skoðaðar að nýju. Í frétt Skessuhorns þann 17. maí 2006 sagði Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri að ekki hafi verið unnið að undirbúningi vegagerðarinnar um nokkurt skeið vegna umhverfissjónarmiða og kröfur í þeim efnum hefðu aukist á seinni árum. Í viðtali við Sturlu í Skessuhorni þann 24. maí sagði hann vegagerðina eitt af þeim verkefnum sem yrðu skoðuð við endurskoðun langtímaáætlunar í vegamálum þ.e. sú áætlun sem hann nú hefur lagt fram. Sagði hann það sína skoðun að leggja ætti veginn svo fremi sem samþykki fengist fyrir framkvæmdinni hjá skipulagsyfirvöldum.

 

Í ræðu á Alþingi þann 1. júní  2006 sagði Sturla að vegagerðin væri á verkefnalista sem gerður hefði verið vegna endurskoðunar vegaáætlunar sem einn þeirra kosta sem stytt gætu þjóðleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hann ítrekaði þetta í þingræðu í nóvember sama ár.


Eins og áður sagði hefur gerð vegarins verið mikið baráttumál sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi undanfarin ár og hefur oft verið ályktað um nauðsyn verksins á þingum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á síðasta ári lýstu fulltrúar allra flokka er buðu fram til bæjarstjórnar á Akranesi stuðningi sínum við lagningu vegarins. Í nóvember samþykkti bæjarráð Akraness ályktun þar sem eindregið er mælt með því við umhverfisráðherra að hann staðfesti það skipulag sem gerir ráð fyrir vegagerðinni.

Í umhverfisskýrslu sem er fylgiskjal samgönguáætlunar og nokkurs konar umhverfismat áætlunarinnar og unnin er af VSÓ-ráðgjöf segir meðal annars í kafla sem fjallar um Ramsarsamþykktina: „Í vinnu matsteymis var tekið tillit til svæða sem falla undir Ramsarsamþykktina og til mögulegra áhrifa á votlendi.  Á meðan á matsvinnu stóð, var vegur um Grunnafjörð á lista yfir líklegar framkvæmdir á samgönguáætlun.  Sú framkvæmd kann að hafa áhrif á Ramsarsvæði.  Mikilvægt er að taka mið af verndargildi svæðisins og Ramsarsamþykktinni þegar ákvörðun verður tekin um framkvæmdina.  Vinna þarf mat á umhverfisáhrifum fyrir fyrirhugaða framkvæmd, sem er á höndum Vegagerðarinnar og einnig kann að þurfa að stofna friðland fyrir votlendisfugla á svipuðum slóðum í staðinn fyrir svæði sem kann að glatast verði af framkvæmdum.  Ef vegagerð um Grunnafjörð verður heimiluð og ekki verður unnt að bæta fyrir áhrif framkvæmda, ber að tilkynna það umsjónarskrifstofu Ramsarsamningsins.  Þess ber að geta að á lokastigum matsvinnu var vegur um Grunnafjörð tekinn út af lista yfir líklegar framkvæmdir á samgönguáætlun.”

 

Ekki náðist í Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra til þess að fá skýringar á því hver og hvers vegna umræddur vegur var tekinn af lista yfir líklegar framkvæmdir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is