22. febrúar. 2007 08:52
Á vef Snæfellsbæjar er sagt frá því að undanfarnar vikur hafa verið í gangi framkvæmdir í gamla Salthúsinu í Ólafsvík. Þar er verið að koma upp aðstöðu fyrir Vör, sjávarrannsóknasetur við Breiðafjörð. Vinna innanhúss er langt komin í 140 fm. húsnæði sem skiptist í skrifstofur og rannsóknaaðstöðu. Þessa dagana er verið að klæða húsið að utan og væntanlega verður húsnæðið tilbúið til notkunar í mars. Búið er að auglýsa eftir tveimur meistaranámsnemum til starfa við beitukóngsrannsóknir hjá Vör og á næstunni verður svo auglýst eftir líffræðingi til að vinna við rannsóknaverkefnið „Vöktun umhverfisþátta og framvindu svifþörunga í Breiðafirði," en Vör fékk um síðustu mánaðamót styrk frá Rannsóknasjóði Íslands til að vinna að því verkefni.