28. febrúar. 2007 11:38
Í dag, miðvikudaginn 28. febrúar verða haldnir tónleikar í Hótel Stykkishólmi þar sem fram koma nemendur frá öllum tónlistarskólunum á Vesturlandi. Í mörg ár hafa tónlistarskólarnir haldið svona tónleika í sveitarfélögunum til skiptis í tilefni af degi tónlistarskólanna og nú er komið að Stykkishólmi. Nemendurnir hittust í morgun klukkan 11, æfa saman, borða og hafa það skemmtilegt en ljúka svo samverunni með tónleikum í dag klukkan 14. Þema dagsins er „samspil“ og því verður eingöngu samspil af ýmsu tagi hjá stórum og smáum hópum. Í lokin mynda allir saman eina hljómsveit, og mun hún m.a. flytja tvö afrísk verk, útsett af Martin Markvoll, en flytjendur verða á annað hundrað manns. Ókeypis aðgangur er á tónleikana og allir velkomnir.