23. febrúar. 2007 07:19
Mestu af fjármunum sem varið verður á næstu árum til hafnaframkvæmda á Vesturlandi á næstu árum samkvæmt tillögu að samgönguáætlun fer í framkvæmdir við Rifshöfn. Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns verður 256,3 milljónum króna varið til framkvæmda í landshlutanum á árunum 2007-2010. Á árinu 2007 verður varið 53,6 milljónum króna til dýpkunar í innsiglingu og höfn Rifshafnar. Þá verður austurkantur hafnarinnar lengdur um 80 metra á þessu ári og verður varið um 73 milljónum króna í þá framkvæmd og einnig 31,7 milljónum króna á næsta ári. Til dýpkunar við austurkantinn verður varið 61 milljón króna og rúmar 8 milljónir króna fara í gerð tengibrautar að hafnarvog og lýsingu við flotbryggju.
Í Ólafsvík verður verður varið 2 milljónum króna í endurbyggingu trébryggju á þessu ári. Einnig verður á þessu ári varið 16 milljónum króna í dýpkun í höfninni og 15 milljónum til dýpkunar við trébryggju á gafli Norðurtanga. Dýpkun við lengingu Norðurtanga kallar á 9 milljóna króna fjárveitingu og til lengingu Norðurtanga er varið rúmum 37 milljónum króna á næstu tveimur árum. Trébryggja verður gerð við gafl Norðurtanga og til þeirrar framkvæmdar verður varið rúmum 19 milljónum króna. Til breikkunar þekju við Suðurþil verður á næsta ári varið tæpum 9 milljónum og rúmum 4 milljónum til byggingar nýs masturshúss. Á árinu 2010 er áætlað að verja tæpum 50 milljónum króna til endurbyggingar grjótgarða Suður- og Norðurgarðs.
Á árinu 2008 er áætlað að verja rúmum 115 milljónum króna til nýrrar bryggju sunnan Litlubryggju í Grundarfirði og einnig til þess að rífa Litlubryggju. Til dýpkunar hafnarinnar í Grundarfirði verður á næsta ári varið tæpum 10 milljónum króna. Á árinu 2009 verður varið rúmum 14 milljónum króna til gerðar uppsáturs, flotbryggju og ýmiss búnaðar við smábátaaðstöðu við Grundarfjarðarhöfn. Þá verður einnig á árinu 2009 varið tæpum 22 milljónum króna til endurbyggingar efsta hluta Norðurbryggju.
Í Stykkishólmshöfn verður á árunum 2009 og 2010 varið tæpum 30 milljónum króna til gerðar smábátalegu fyrir allt að 60 báta og á árinu 2010 verður rúmum 3 milljónum króna varið til smíði ljósamasturs- og vatnshúss við Skipavík.