25. febrúar. 2007 08:25
Hin árlega stærðfræðikeppni sem Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi heldur fyrir nemendur í áttundu, níundu og tíundu bekkjum grunnskóla á Vesturlandi verður haldin í húsakynnum skólans nk. þriðjudag, 27. febrúar kl. 15:00. Auk skólanna á Vesturlandi er Grunnskólanum á Hólmavík og Klébergsskóla á Kjalarnesi boðin þátttaka. Að lokinni keppni njóta þátttakendur veitinga í boði Sparisjóðsins á Akranesi sem einnig gefur verðlaun og greiðir allan kostnað við keppnishaldið.
Allir nemendur áttundu, níundu og tíundu bekkja eru hvattir til að taka þátt í keppninni. Þeir þrír einstaklingar í hverjum árgangi sem ná bestum árangri hljóta peningaverðlaun en tíu efstu fá viðurkenningarskjal. Verðlaunaafhending fer fram laugardaginn 17. mars 2007.
Þeim sem vilja undirbúa sig fyrir keppnina er bent að gamlar keppnir eru á vefsíðunni www.flensborg.is/ebs/stækepp1.htm