27. febrúar. 2007 08:10
Í síðustu viku var fyrsti hópurinn á landinu útskrifaður úr námi sem nefnist Grunnnám skólaliða. Námið stóð yfir frá miðjum október og fram til 20. febrúar sl., og sátu 23 konur á skólabekk einu sinni í viku. Flestar konurnar komu úr leik- og grunnskólum á Snæfellsnesi með ólíkan bakgrunn og voru þær á öllum aldri.
“Upphaflega var auglýst eitt námskeið sem átti að verða í Grundarfirði, en eftirspurnin var svo mikil að úr varð að bæta þurfti öðru námskeiði við og þá í Stykkishólmi. Þessi námsskrá í Grunnnámi skólaliða er afurð þarfagreiningar sem gerð var árið 2005, en að henni stóðu fulltrúar frá Símenntunarmiðstöðinni og leik- og grunnskólum á Snæfellsnesi og í Búðardal.
Starfsmenntaráð veitti styrk til þessarar þarfagreiningar og á síðasta ári var námsskráin gefin út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins,” segir Inga Dóra Halldórsdóttir forstöðumaður Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi.
Námið var alls 70 kennslustundir og komið var inn á ýmsa þætti eins og uppeldi og umönnun, slysavarnir og skyndihjálp, aga og reiðistjórnun, leik og skapandi vinnu, mat og næringu, ræstingu og umhverfið, svo eitthvað sé nefnt. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að það megi meta þetta nám til allt að 6 einingum til styttingar náms í framhaldsskóla.