28. febrúar. 2007 03:21
Knattspyrnuunnendur ráku upp stór augu þegar þeir lásu fyrirferðarmikla umfjöllun Blaðsins í dag um félagsskipti hjá liðum í úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Samkvæmt fyrirsögninni hafa miklar hrókeringar átt sér stað í leikmannahópum. Samkvæmt fréttinni hafa átta leikmenn gengið til liðs við gula og glaða Skagamenn. Vissulega ánægjuefni því undanfarnar vikur hafa átt sér stað miklir spádómar um hvort Guðjón Þórðarson þjálfari liðsins muni styrkja lið sitt áður en að fyrsta leik í úrvalsdeildinni kemur. Hingað til hefur hann leyft ungum og efnilegum mönnum í liðinu að spreyta sig.
Þegar listinn í Blaðinu er skoðaður nánar kemur í ljós að þrátt fyrir að Guðjón sé þekktur fyrir að treysta ungum mönnum muni hann tæplega nýta sér krafta nokkurra þessara mann, þó efnilegir séu. Yngstir þeirra leikmanna sem Blaðið nefnir eru tvíburarnir Alexander Már og Indriði Áki Þorlákssynir sem fæddir í ágúst 1995 og því aðeins 11 ára. Þá er nefndur til sögunnar Friðrik Arthúr Guðmundsson sem er fæddur árið 1994 og því aðeins 12 ára. Hinir nýju liðsmennirnir fimm eru eldri eða frá 18-22 ára gamlir. Ekki er að efa að allir þessi nýju liðsmenn ÍA verða félaginu giftudrjúg viðbót þó meistaraflokkur félagsins þurfi að bíða krafta þeirra sumra í nokkur ár.