28. febrúar. 2007 02:32
Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi ætla á morgun að gefa ökumönnum frítt í Hvalfjarðargöngin. Með þessu vilja frambjóðendurnir vekja athygli á þeirri skoðun sinni að eftir nær 9 ára rekstur ganganna sé eðlilegt að göngin verði gerð gjaldfrjáls eins og aðrir þjóðvegir landsins. Sem kunnugt er lækkar virðisaukaskattur á veggjaldi á morgun og verða þá einstakar ferðir fólksbíla lækkaðar úr 1.000 krónum í 900 krónur. Samfylkingarfólk telur að betur megi ef duga skal og af því tilefni verður efnt til blaðamannafundar með þingmanni flokksins og frambjóðendum við norðurenda ganganna á morgun klukkan 13. Einnig munu frambjóðendur af þessu tilefni bjóða nokkrum ökumönnum frítt í göngin til þess að undirstrika kröfuna um gjaldfrjáls göng.