02. júní. 2007 08:05
Fyrr í vikunni kvaddi stærsti hópur sem útskrifast hefur frá einum leikskóla á Akranesi, leikskólann sinn Vallarsel á Akranesi. Um var að ræða alls 48 börn. Reyndar varð að skipta hópnum í tvennt og voru börnin útskrifuð sitt hvorn daginn. Leikskólinn Vallarsel er tónlistarleikskóli. Þar hefur verið unnið markvisst með tónlistaruppeldi þeirra barna sem þar eru. Að sögn Bjargar Jónsdóttur, leikskólastjóra er unnið m.a. markvisst með takt og rythma og býr skólinn vel að ásláttarhljóðfærum.
„Einu sinni í viku fær hvert barn tónlistarkennslu og Katrín Valdís Hjartardóttir tónlistarkennari í Grundaskóla kemur til að sjá um kennsluna. Þetta verkefni hefur verið í gangi síðan 1998 og gengið afar vel. Afrakstur tónlistarkennslunnar er síðan sýndur tvisvar á ári, í desember og á vorhátíð í maí. Fyrir rúmlega ári var tekinn upp geisladiskur með uppáhaldslögum barnanna og útbúin söngbók sem er til sölu og hægt að nálgast í leikskólanum. Síðastliðinn vetur fengum við styrk frá þróunarsjóði leikskóla Akraneskaupstaðar, 400.000 krónur til þess að setja í gang þróun á verkefni sem við köllum “Heimspeki og tónlist.” Þetta kemur til af því að við höfum verið gífurlega ánægð með tónlistarverkefnin okkar og vildum bæta þar meiru inn í. Sigurður Björnsson heimspekingur við Kennaraháskóla Íslands hefur komið einu sinni í mánuði til að leiðbeina okkur við að koma þessu verkefni á koppinn. Við gefum okkur tvö ár í að þróa það en munum taka fyrsta skrefið í notkun verkefnisins í haust. Einnig tókum við inn um síðustu áramót lífsleikniverkefnið Stig af stigi. Þar er verið að fara í gömul og góð gildi, sem aldrei eru of oft endurtekin eins og orsök og afleiðingar, siðfræði, tilfinningar, kurteisi og fleira í þeim dúr,“ sagði Björg Jónsdóttir leikskólastjóri í samtali við Skessuhorn.
Þess má geta að Björg tók við leikskólastjórastöðunni 1. september sl. en áður hafði hún verið aðstoðarleikskólastjóri. Þeirri stöðu gegnir í dag Kristín Sveinsdóttir.