10. júní. 2007 10:30
Árleg menningarhátíð BSRB var haldin í Munaðarnesi í gær og var húsfyllir. Opnuð var sýning á verkum Guðbjargar Hákonardóttur – Guggu. Á hátíðinni var boðið upp á tónlist og upplestur. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari fluttu tónlist og Steinunn Sigurðardóttir las úr eigin verkum. Þá flutti Ögmundur Jónasson formaður BSRB ávarp. Boðið var upp á veitingar. Sýningin verður opin á afgreiðslutíma veitingahússins Kaffi Paradís til 1. október.
Guðbjörg Hákonardóttir - Gugga er fædd í Reykjavík 1958. Hún útskrifaðist úr málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995. Hún stundaði einnig nám í Myndlistaskóla Akureyrar og við listaakademíuna í Helsinki. Þetta er sjötta einkasýning Guggu en hún hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis. Á sýningunni í Munaðarnesi eru ný málverk unnin með olíu á striga.