10. júní. 2007 10:47
Búið er að kalla út 15 björgunarsveitir á vestanverðu landinu til leitar að tveimur kajakræðurum sem saknað er. Hugðust þeir sigla frá Garðskaga til Snæfellsness í gærmorgun og ná áfangastað í gærkvöldi. Þegar ekki hafði spurst til þeirra í dag var farið að grennslast fyrir um þá. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu eru ræðararnir reynt fólk og vel útbúið á allan hátt. Hafa skal þó það í huga að þetta mun vera, eftir því sem best er vitað, í fyrsta skipti sem menn reyna siglingu á kajökum þessa leið. Björgunarsveitarmenn leita nú strandlengjuna á svæðinu með harðbotna björgunarbátum og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar siglir þá leið sem ræðararnir áætluðu að fara. Einnig er leitað frá landi. Stjórnstöð leitar er nú á Ökrum á Mýrum.