18. júní. 2007 08:37
Það var annasamur dagur og í senn gleðilegur í lífi listamannsins Benedikts Erlingssonar síðastliðinn föstudag. Hann mátti hafa sig allan við að ná að vera viðstaddur Grímuhátíðina í Reykjavík, þar sem hann var tilefndur til þriggja verðlauna, eftir að hafa sýnt Mr. Skallagrímsson í Landnámssetrinu Borgarnesi fyrr um kvöldið. Að sýningu lokinni í Borgarnesi, hljóp leikarinn beina leið á framkvæmdasvæðið á Rauða torgi framan við Landnámssetrið þar sem leiguþyrla beið hans og flutti hann í skyndi til Reykjavíkur. Ákveðið hafði verið að færa sýninguna fram um tvo tíma þennan dag, svo Benedikt gæti verið viðstaddur Grímuna, verðlaunahátíð íslenskrar leiklistar.
Það var ekki að ástæðulausu sem sýningin var flutt til þar sem sýningin Mr. Skallagrímsson fékk þrjár tilnefningar til Grímunnar og sýning í leikstjórn Benedikts, Ó fagra veröld, fékk jafnframt fimm tilnefningar.
Benedikt hlaut síðar um kvöldið flest verðlaun á Grímuhátíðinni, alls þrenn. Hann hlaut verðlaun fyrir leikara ársins og leikritaskáld ársins fyrir verkið Mr. Skallagrimsson og verðlaun sem leikstjóri ársins fyrir leikstjórn Ó fagra veröld.
Þyrluflugið reyndist því umstangsins virði og ástæða til að óska Benedikt hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.