02. júlí. 2007 12:44
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur frestað ákvörðun um nýtt byggðarmerki, en fyrirhugað var að samþykkja það á fundi í síðustu viku. Líkt og Skessuhorn hefur greint frá hefur komið fram töluverð óánægja með merkið, ekki síst þá staðreynd að í því er kross. Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri, sagði í samtali við blaðamann að ákveðið hefði verið að kalla dómnefnd saman að nýju í ljósi framkomna athugasemda. Hann tók það fram að sjálfur hefði hann ekki verið á fundi sveitarstjórnar þar sem ákvörðunin um frestunina var tekin. „Menn vildu hins vegar gera þetta svona og fara yfir þær athugasemdir sem fram hafa komið frekar en að keyra þetta í gegn í einhverju offorsi.“
Einar segir að dómnefnd muni koma fljótlega saman og fara yfir málið. Sveitarstjórn er komin í sumarfrí og mun ekki funda í júlí. Málið verður því tekið fyrir á fyrsta fundi hennar eftir frí sem haldinn verður þriðjudaginn 8. ágúst. Einar segir þá töf ekki vera neitt vandamál. „Við höfum verið lengi án byggðarmerkis hér og þolum alveg smátíma í viðbót.“