03. júlí. 2007 08:58
Umhverfisráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í kæru Landssambands veiðifélaga gagnvart ákvörðun Skipulagsstofnunar sem ákvað þann 23. júní 2006 að fyrirhugað þorskeldi í sjókvíum í Hvalfirði og í Stakksfirði, allt að 3000 tonn af eldisþorski á hvorum stað, skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hefur verið gerð ógild og skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs þorskeldis AGVA ehf. í Hvalfirði. Forsaga málsins er sú að Landssamband veiðifélaga sendi inn kæru þann 17. júlí 2006, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun og m.a. ekki hafi verið leitað til sérfróðra aðila um vistkerfi laxfiska og möguleg umhverfisáhrif af stórfeldu þorskeldi í nágrenni ósa veiðiáa.
Jafnframt gerði LV athugasemdir er vörðuðu skýrslu framkvæmdaraðila, en þar kæmu fram fullyrðingar um að enginn fiskur sleppi úr kvíum, slíkt sé í þversögn við upplýsingar í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar, en þar kemur fram að á árinu 2004 hafi eldið numið 1000 tonnum af þorski og að 8000 þorskar hafi sloppið úr eldiskvíum.
Í úrskurði Umhverfisráðuneytis segir orðrétt;
“Ráðuneytið fellst á með kærendum að fjölskrúðugt lífríki er í Hvalfirði. Einnig er fyrir nokkuð álag á það lífríki eins og fram hefur komið. Með vísan til þess sem að framan segir, einkum um möguleg áhrif á lífríki og laxagegnd í nágrenni fyrirhugaðar framkvæmdar og um möguleg sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, telur ráðuneytið að fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis og staðsetningar sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Telur ráðuneytið því rétt að fram fari mat á umhverfisáhrifum hennar hvað varðar þorskeldi í Hvalfirði en ekki þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þorskeldi í Stakksfirði. Er því felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, frá 23. júní 2006, um að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum sbr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr 106/2000, hvað varðar það þorskeldi sem fyrirhugað er í Hvalfirði.