06. júlí. 2007 07:28
Á morgun, laugardaginn 7. júlí klukkan 14:00 opnar Erla B. Axelsdóttir sýningu á verkum sínum í Kirkjuhvoli á Akranesi. Þema sýningarinnar er í beinu framhaldi af síðustu sýningu Erlu þar sem hún vann út frá nærmyndum úr náttúrunni. Á sýningunni nú fléttast upplifanir úr hennar nánasta umhverfi inn í verkin og efnisáferðin ræður ferðinni að stórum hluta. Að þessu sinni hefur Erla kosið að vinna verk sín í önnur efni, þ.e. blandaða tækni á pappír en síðast sýndi hún olíuverk.
Sýningin á Kirkjuhvoli er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 15 – 18 og stendur til 29. júlí 2007.