05. júlí. 2007 11:02
Vegfarendur sem áttu leið framhjá Skrúðgarðinum á Akranesi í gær ráku upp stór augu þegar þeir sáu þessar ungu stúlkur standa við jólatré. Það er enda ekki algeng sjón að sjá jólatré í fullum skrúða í júlí. Enn óx undrunin þegar í ljós kom að stúlkurnar voru í óðaönn að spreyja trén, ekki með snjóspreyi, heldur appelsínugulri og hvítri málningu. Hér var á ferð liður í undirbúningi Írskra daga sem eru að bresta á og verið var að mála trén í írsku fánalitunum. Í tilefni þeirra var lagerinn af jólatrjám hreinsaður úr byggingarvöruverslunum og mun það ekki oft gerast að 20 jólatré séu keypt í júlí. Menn höfðu það á orði að þetta væru ekki jólatré heldur júlítré. Vafalaust munu hin appelsínugulhvítgrænu júlítré verða bæjarprýði.