07. júlí. 2007 01:47
Þétt dagskrá viðburða er í dag á fjölskylduhátíðinni Írskum dögum sem nú stendur yfir á Akranesi. Veður er milt og gott. Lítilsháttar rigning var fyrir hádegi en nú hefur stytt upp. Ágæt stemning er í bænum á hinum ýmsu dagskráratriðum og skemmtir fjölskyldan sér saman við ýmsa dægradvöl, svo sem leiktæki, markaði og annað sem í boði er. Nær útilokað er að segja til um fjölda fólks í bænum enda dreifast dagskrárliðir hátíðarinnar víða. Á Akranesi búa nú sex þúsund manns og má gera því skóna að hátt í tvöfaldur sá fjöldi dvelji í bæjarfélaginu um helgina.
Líkt og á síðasta ári setti ölvun ungmenna dökkan stimpil á hátíðina liðna nótt. Mikill erill var hjá lögreglu og björgunarsveitarmönnum á Akranesi vegna þess fjölda sem dvelur á tjaldstæðum bæjarins við Kalmansvík. Þá bættist við annir lögreglu björgun og skýrslutaka vegna strands hraðbátsins Stacyar eftir miðnætti. Tólf fíkniefnamál komu upp síðastliðna nótt og mikil ölvun var á svæðinu. Tveir gistu fangageymslur vegna óspekta. Þá var einn ökumaður tekinn grunaður um akstur undir áhrifum ólöglegra fíkniefna.
Viðbúnaður fyrir kvöldið
Bæði Björgunarfélag Akraness og lögregla eru við öllu búin fyrir kvöldið en búist er við miklum fjölda gesta á dagskráratriðin sem í boði eru. Líkt og áður telja menn að fjölmennasti viðburðurinn verði hið svokallaða Lopapeysuball, sem haldið verður í skemmu við höfnina í kvöld. “Við reiknum með talsverðum fjölda fólks í bænum í kvöld. Gæsla verður mjög öflug og við erum klár fyrir kvöldið og vonum að allir skemmti sér vel og verði sér og sínum til sóma,” sagði Jóhanna Gestsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni í samtali við Skessuhorn.