09. júlí. 2007 02:05
Um helgina fór fram í Kópavogi 25. Landsmót UMFÍ. Um sex þúsund manns tóku þátt í keppnisgreinum og hafa aldrei verið fleiri. Mótið þótti takast vel í heild sinni og veðrið lék við keppendur og gesti alla mótsdagana. Ungmennafélag Kjalarnesþings, UMSK, fór með sigur af hólmi í heildarstigakeppni mótsins. UMSK hlaut alls 2143 stig en HSK var í öðru sæti með 1740,7 stig. Íþróttabandalag Reykjavíkur varð síðan í þriðja sæti með 1539,7 stig. Vestlensku félögin sendu lið til keppni og voru þau fjórðungnum til sóma. Ungmennasamband Borgarfjarðar lenti í ellefta sæti heildarstigakeppninnar með 259 stig og Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu í 14. sæti með 150 stig. Þá endaði Ungmennasamband Dalamanna og N-Breiðfirðinga í 22. sæti með 27 stig og ÍA var sæti neðar með einu stigi minna.