11. júlí. 2007 11:29
Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) hóf Íslandsátak sitt um aukna hreyfingu og bætt mataræði á Hótel Hamri við Borgarnes í síðustu viku. Fjöldi kvenna lét sig ekki muna um það að mæta um hábjargræðistímann, eins og sagt er, til að hlíða á boðskapinn hjá Unu Maríu Óskarsdóttur varaforseta KÍ. Hún hélt tölu um gildi næringar og hreyfingar fyrir alla aldurshópa, því lengi býr að fyrstu gerð. Ekki væri verið að tala um að steypa öllum í sama mót og búa til einhverjar svaka mjónur, heldur auka hreysti og vellíðan þjóðarinnar almennt. Una María nefndi einnig að aldrei væri of seint að snúa við blaðinu og breyta því sem ekki væri í lagi í núinu, að taka fyrsta skrefið og brjóta upp vanann væri yfirleitt erfiðast. Mörg hagnýt atriði væri gott að hafa í huga varðandi hreyfingu:
Taka stigana þegar tækifæri gæfist á því og leggja bílnum aðeins lengra frá. Tvö erfið skref í dag yrðu þrjú létt á morgun. Því væru gönguskór væru hollari fótabúnaður en hælaskór.
Hún benti jafnframt á að það væru konur sem yfirleitt keyptu inn og því væri mikilvægt að þær væru meðvitaðar um næringargildi þess sem í pottana væri látið. Þess vegna væri KÍ að taka saman höndum með öllum konum Íslands til að auka hreysti þjóðarinnar. Nóg væri til af bæklingum og öðru lesefni til að fræðast um það sem máli skipti, eins og hvaða næringarefni væri að finna í hverjum fæðuflokki fyrir sig.
KÍ mun efna til funda um allt land í samstarfi við héraðs- og svæðasamtök kvenfélaganna. Allar konur, ungar og aldnar, bláeygðar sem brúneygðar eru hvattar til að mæta á fundina á hverjum stað fyrir sig, sýna sig og sjá aðra.