12. júlí. 2007 10:15

Í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju í Saurbæ er ýmislegt um að vera á árinu. Í mars var opnuð myndlistarsýningin: Mynd mín af Hallgrími, þar sem 27 listamenn fengu frjálsar hendur við gerð myndar af sálmaskáldinu, en þær áttu allar að vera í sömu stærð 50 x 40 cm sem tvívítt verk á vegg. Í kjölfar þeirrar sýningar og vegna afmælisárs kirkjunnar, hófu nemendur í 2.-9. bekk Heiðarskóla sömuleiðs undirbúning að sinni eigin myndlistarsýningu. Helena Bergström, myndmenntakennari í Heiðarskóla, hafði veg og vanda að sýningunni og undirbjó börnin m.a. með fræðslu um Hallgrím og kveðskap hans, en auk þess skoðuðu nemendur ýmsar myndir af sálmaskáldinu. Nemendur fengu sjálfir að velja tækni og efni og þar með sýndu þeir frumkvæði auk þess að nýta sér kunnáttu og reynslu úr myndmenntakennslunni.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vesturlands. Sýning nemenda í Heiðarskóla stendur nú yfir í Hallgrímskirkju í Saurbæ, en kirkjan er ávallt opin og þessi skemmtilega sýning því aðgengileg fyrir gesti og gangandi.