18. júlí. 2007 11:16
Nýtt hringtorg er í byggingu á Hvanneyri þessa dagana á mótum Túngötu, Hvanneyrarvegar og Skólabrautar. Jörvi hf. sér um verkið. Þegar blaðamann bar að garði voru “Jörvalordinn” Haukur Júlíusson og Arnór Orri Hermannssson, önnum kafnir við leit að hitaveitulögn sem leyndist í einu horni núverandi gatnamóta. Nýttu þeir til þess smágröfu af Yuchai gerð en stóra 330C Cat skurðgrafan beið átekta. Hringtorg þetta er nokkuð merkileg framkvæmd í vegakerfi Borgarfjarðarsýslu, því að sögn Hauks mun þetta vera fyrsta hringtorg sýslunnar norðan Skarðsheiðar, en eitt mun vera fyrir í Mýrasýslu og annað er í Borgarfjarðarsýslu við Hvalfjarðargöngin.
Nokkuð heitt var á Hauki og Arnóri enda veðurblíða með eindæmum og var Haukur kominn á “belginn” um níuleitið í von um að jafna úr bændabrúnkunni.
Hvanneyringar hafa nokkuð barist fyrir að fá hringtorg á þessum stað enda er umferð þar að aukast meðfram uppbyggingu á staðnum. Hringtorgið mun stuðla að umferðaröryggi á staðnum og breyta aðkomunni inn í þorpið til hins betra. Verkinu á að vera lokið 15. september 2007.