20. júlí. 2007 11:45
“Utanvegaakstur er töluvert vandamál í þjóðgarðinum Snæfellsjökli og hafa mörg sár myndast í sumar á viðkvæmum svæðum sem seint eða aldrei munu gróa. Í sumum tilvikum er e.t.v. um að kenna hugsunarleysi eða ónógum merkingum og upplýsingum en fyrirhugað er að bæta þær í tengslum við vegagerð fyrir Jökul en vegabætur og lagning slitlags á Útnesvegi standa nú yfir og á þeim að ljúka 2009,” segir í tilkynningu frá starfsfólki þjóðgarðsins Snæfellsjökli. Þá segir að merkingum hafi verið bætt við í sumar til að loka slóðum sem ekki má aka vegna gróðurverndar.
“Dæmi eru um að þeir staurar séu sparkaðir niður og spjöll unnin í grenndinni með hringspóli og virðist þar vera um ásetning að ræða. Einkum eru það ökumenn bifreiða sem hafa valdið spjöllum í sumar en skemmdir af völdum bif- og fjórhjóla heyra til undantekninga þetta árið og er viðkomandi ökumönnum þökkuð tillitssemin.”
Þjóðgarðsvörður og landverðir biðla til fólks um að virða merkingar og bann við utanvegaakstri og sýna náttúrunni virðingu. Ábendingar og athugasemdir varðandi lokanir, merkingar eða annað í þjóðgarðinum eru vel þegnar. Sími á skrifstofu þjóðgarðsins er 436 6860 og tölvupóstur snaefellsjokull@ust.is.
Á myndinni má sjá hjólför í viðkvæmum gróðri utan vegar í þjóðgarðinum. Slík sár eru mjög lengi að jafna sig. Ljósm. glp.