23. júlí. 2007 08:25
Landbúnaðarsýning og bændahátíð verður haldin þriðja árið í röð í reiðhöllinni við Sauðárkrók dagana 17. - 19. ágúst nk. Á sýningunni í fyrra kynntu 25 fyrirtæki vélar, vörur og þjónustu fyrir landbúnaðinn fyrir tæplega tvö þúsund gesti. “Í ár er útlit fyrir enn stærri og skemmtilegri sýningu, sem hefst seinnipart föstudags og stendur fram á sunnudag. Atriði og uppákomur verða í gangi allan tímann, bæði innan og utan sýningarsvæðis. Í reiðhöllinni er 1.700 m2 innisýningarsvæði og auk þess stórt útisvæði fyrir kynningar á stærri vélum og tækjum,” segir í tilkynningu frá sýningaraðilum.
Dagskrá verður bæði fyrir börn og fullorðna. Starfræktur verður húsdýragarður, margverðlaunaðar landnámshænur verða til sýnis þar sem bæði verður sýnd ellefu vetra aldursforseti íslenskra landnámshænsna og þær yngstu klekjast út á meðan að sýningin stendur yfir. Þá verða vinsælar kálfa- og hrútasýningar á sínum stað, umhverfisverðlaun verða afhent, kynning verður á handverki fyrr og nú og ýmislegt fleira verður í boði. Böll verða á Sauðárkróki bæði föstudags- og laugardagskvöld, afurðastöðvar opna dyr sínar fyrir gestum og hátæknifjósið í Birkihlíð verður til sýnis. Á landbúnaðarsýningunni verður einnig Matarkistan Skagafjörður galopin, full af girnilegum kræsingum, og þá verða veitingahús víðsvegar um Skagafjörð með sérstakan skagfirskan matseðil þessa helgi. Vélafyrirtæki á útisvæði verða fleiri í ár en í fyrra, og úrval véla til sýnis eykst mikið milli ára. Um sýningarhelgina verða tónleikar að Hólum, kvöldverður að “handan vatna hætti” í Glaumbæ og margt fleira í boði. Nánari upplýsingar um landbúnaðarsýninguna og afþreyingu í Skagafirði helgina 17. – 19. ágúst má finna á slóðinni: www.horse.is/landbunadarsyning.