23. júlí. 2007 04:47
Alls urðu sex umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í vikunni sem leið. Öll voru þau án teljandi meiðsla en nokkrir hlutu skrámur og mar eftir bílbeltin. Tvö tilvik, annað rétt ofan við Borgarnes en hitt upp í Lundarreykjadal, voru nokkuð áþekk en í þeim misstu ökumenn bifreiðar sínar út í lausamöl í vegkanti og beygðu síðan of skart aftur inná veginn með þeim afleiðingum að bílarnir ultu á veginum. Annar bíllinn hafnaði á hvolfi en hinn hélt áfram út fyrir veg. Að sögn Theodórs Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns ber töluvert á því að ungir ökumenn sem og erlendir kunni ekki að bregðast rétt við í “íslensku” lausamölinni og lendi því í óhöppum sem betri ökukennsla eða sérstök þjálfun í akstri í lausamöl og hálku, gæti hæglega komið í veg fyrir.