Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. júlí. 2007 12:49

Mótmælir ásökunum vegna Múlavirkjunar

Við vígslu Múlavirkjunar. Eggert er lengst til hægri en með honum eru Bjarni Einarsson og Ástþór Jóhannsson.
Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um Múlavirkjun og hefur Landvernd fullyrt að skipulags- og byggingarlög hafi verið brotin við byggingu hennar. Þá sendi Skipulagsstofnun Eyja- og Miklholtshreppi erindi í september 2005 og áminnti heppsstjórn um eftirlitsskyldur sínar hvað varðar virkjunina. Eggert Kjartansson bóndi á Hofsstöðum tók við embætti oddvita hreppsins í júní í fyrra, en hann gegnir stöðu framkvæmdastjóra Múlavirkjunar ehf. Hann segist ekki vita til þess að neitt lögbrot hafi verið framið, en það sé lögfræðinga að fara yfir það. Hann segir ekkert hæft í þeim fullyrðingum sem fram hafa komið undanfarið að virkjunin um sé stærri en gert hafi verið ráð fyrir. „Við fengum sérfræðinga til að reikna út rennslið í útfalli Straumfjarðarár og lágu rannsóknir tuga ára því til grundvallar. Niðurstaðan var sú að meðaltalsorkuöflun gæti verið 1,9 MW á sólarhring miðað við úrkomu á svæðinu. Þegar við fórum í orkusölusamninga óskaði kaupandinn eftir því að meiri orka yrði afhent yfir daginn en á nóttunni, enda notkunin meiri þá. Því er framleitt meira rafmagn á daginn en gert var ráð fyrir, en minna á nóttunni. Við erum búnir að keyra virkjunina í eitt ár og niðurstaðan er sú að meðaltalsframleiðslan er rétt rúmlega 1,9 MW. Þær áætlanir standast því alveg. Þetta er enda bara afmarkað vatna- og úrkomusvæði og ekkert hægt að nýta meira en þar er fyrir hendi,“ segir Eggert.

 

Vatnið ekki hækkað

Harðar ásakanir hafa komið fram um að vegna stíflunnar hafi Baulárvallavatn hækkað með tilheyrandi breytingum á lífríki svæðisins. Eggert segir það einfaldlega ekki rétt. Eðlileg hæð vatnsins undanfarna áratugi hafi rokkað frá 193,6 m ysm í 194,6 m ysm og meðaltalshæð vatnsins áður en virkjunin kom hafi verið 194,1 m ysm. „Eftir að virkjunin var tekin í gagnið fylgdumst við með hæð vatnsins, fyrst handvirkt en um páskana 2006 var settur upp vatnsmælir. Við létum reikna upplýsingar úr þeim mæli fyrir okkur frá tímabilinu apríl til okóber 2006 og meðaltalshæð vatnsins á þeim tíma var 194,1 m ysm, nákvæmlega sama meðaltalshæð og áður en virkjunin var tekin í gagnið. Öll umræða um hækkun vatnsins kemur mér því mjög á óvart.“

 

Ekkert nýtt

Þegar leyfi var veitt fyrir virkjuninni var fyrirhugað að halda straumi á milli Baulárvallavatns og stíflunnar. Þegar til kom reyndist það ekki unnt. Eggert segir að það hafi verið kynnt hlutaðeigandi aðilum í apríl 2006 og undrast hann því ummæli embættismanna í fréttum undanfarið. Ekkert nýtt hafi gerst í málinu frá fundi fyrirtækisins með Skipulagsstofnun, Orkustofnun, Umhverfisstofnun og Iðnaðarráðuneyti sem haldinn var í apríl 2006. „Þetta er eina mikilvæga atriðið hvað varðar lífríkið sem við höfum ekki náð að uppfylla frá upphaflegum hugmyndum. Við tilkynntum hlutaðeigandi aðilum um það og allir urðu sammála um að grípa til mótvægisaðgerða og síðan um haustið 2006 höfum við unnið eftir áæltun sérfræðinga hvað það varðar. Ákveðið var að sækja um starfsleyfi að nýju vegna breyttra aðstæðna og var það í fullu samráði við alla aðila.“

 

Straumöndin færst til

Eggert segir að vegna þess að ekki hafi tekist að halda straumnum frá vatni að stíflu hafi það haft áhrif á lífríkið í útfalli vatnsins. Þar fitar straumönd sig áður en hún verpir og urriðinn hrygnir einnig þar. Straumönd hefur verið talin á svæðinu um langt skeið og vorið 1998 voru 44 straumendur uppi við útfallið úr vatninu. Talningar fyrir ári síðan sýna að þar er enginn fugl lengur, en hins vegar voru 22 straumendur fyrir neðan stöðvarhús. Tekið skal fram að vorið 2006 var hart fyrir fuglalíf og talningar fóru fram rétt eftir hret um vorið. Í maí/júní í ár var aftur talið og þá kom í ljós að fyrir neðan stöðvarhús og niður með kvíslinni voru 38 straumendur. Eggert segir að þetta bendi til að virkjunin hafi fært svæði straumandarinnar til, frá útfalli vatnsins og niður fyrir stíflu. „Rannsóknir munu staðfesta hvort þetta er rétt en ef svo er, líkt og allt bendir til, höfum við skapað betra svæði fyrir öndina en hún hafði áður.“

Hvað varðar urriðann segir Eggert menn vonast til að það sama gerist með hann. Hann flytji sig til í ár og læki í nágrenninu og hrygni þar. Vel sé hins vegar fylgst með því og það sé lykilatriði. „Fiskifræðingur fylgist með vatninu og ef í ljós kemur að hrygning skerðist verðum við með klak og sleppingar. Þessu höfum við lofað fyrir löngu síðan. Það sem er mikilvægt er að fræðimenn fylgist með svæðinu svo við getum gripið inn í ef þörf er á.“

 

Meiri tími betri

Aðspurður hvort það hefði verið skynsamlegt, í ljósi breyttra aðstæðna, að setja virkjunina í umhverfismat á sínum tíma segist Eggert ekki geta svarað því. Hann viðurkenni hins vegar að kannski hefðu menn átt að gefa sér meiri tíma. „Við hefðum átt að gefa okkur eitt ár í viðbót í undirbúning þá hefði þetta verði smurðara og gengið betur. Þá á ég bæði við sjálfa framkvæmdina og áætlanir okkar um virkjun í sátt og samlyndi við umhverfið. Við hefðum þá getað hugað að ákveðnum málum fyrirfram og það hefði verið smurðara. Ég ítreka hins vegar að vel er fylgst með öllu lífríki á svæðinu. Það eina sem hefur farið úrskeiðis og haft hefur mikilvæg áhrif á lífríkið er straumurinn frá vatni að stíflu.“

 

Í Þýskalandi

Eggert er staddur í Þýskalandi og hefur því takmörkuð tækifæri til að tjá sig um þetta mál. Hann féllst þó á að gefa Skessuhorni stutt viðtal en mun hins vegar ræða málið ítarlegar eftir að hann kemur heim þann 7. ágúst.

Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is