10. nóvember. 2007 07:00
Líkt og vegfarendur hafa séð standa nú yfir miklar framkvæmdir við Heilsugæslustöðina í Ólafsvík og hefur fjöldi tækja og vinnuvéla verið á svæðinu. Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar sagði í samtali við Skessuhorn að verið væri að aka efni í leiðargarða fyrir ofan Heilsugæslustöðina og þeir ættu að beina hugsanlegum snjóflóðum frá stöðinni. Kristinn segir að einnig sé unnið sé að því að festa niður grjót með netum í hlíðinni fyrir ofan Heilsugæslustöðina, auk þess sem unnið sé ofarlega í Gilinu við að moka efni og breikka farveg lækjarins.
„Ef það kemur krapaflóð þá verður til svæði þar sem það þynnist og verður hættuminna þegar það kemur að nýrri brú sem verið er að setja yfir Gilið við Ennishlíðina, en það á eftir vinna niður Gilið,“ segir Kristinn. Verklok eru áformuð næsta vor.