14. nóvember. 2007 02:11
Fjölmennur fundur var haldinn í Lyngbrekku í síðustu viku að frumkvæði Búnaðarfélags Mýramanna sem nær yfir gömlu Borgar-, Álftanes-, og Hraunhreppana. Að sögn Guðbrands Guðbrandssonar á Staðarhrauni, formanns félagsins var mætt frá næstum hverjum bæ. „Mýramenn eru rosalega móðgaðir yfir þessum breytingum sem snúa að reglum um ljósastauranotkun,“ sagði Guðbrandur í samtali við Skessuhorn. „Mönnum finnst sem jafnræðisreglan sé brotin á okkur sveitafólkinu. Umræður urðu líflegar og margir tóku til máls. Það voru fimm kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins sem mættu ásamt sveitarstjóra og þeir tóku með sér ályktun sem fundurinn samþykkti samhljóða. Fulltrúarnir lofuðu engu nema því að taka ályktunina fyrir á næsta fundi. Ég held að þeim hafi komið á óvart hversu þung undiraldan er í þessu máli,“ sagði Guðbrandur.
Efni ályktuninnar var á þá leið að fundurinn krefst þess að breytingar á reglum um lýsingu í dreifbýli sem sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 11. október sl. verði dregin til baka. Jafnframt skorar fundurinn á sveitarstjórnina að sett verði upp lýsing á þeim bæjum sem síðar komu inn í sveitarfélagið eftir þeim reglum sem giltu um lýsinguna í upphafi. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri sagði í samtali við Skessuhorn að ekki væri búið að taka ályktunina fyrir, það yrði gert á fundi sveitarstjórnar nk. fimmtudag.