21. nóvember. 2007 07:30
Í dag, miðvikudaginn 21. nóvember, er Forvarnardagur haldinn í öllum grunnskólum landsins. Í 9. bekkjum skólanna verður dagskrá helguð baráttunni gegn fíkniefnum þar sem áhersla er lögð á uppbyggilegar forvarnir og þátttöku ungmennanna sjálfra. Forvarnardagurinn var í fyrsta sinn haldinn í fyrra undir kjörorðinu „Taktu þátt! Hvert ár skiptir máli.“ Hann er haldinn að frumkvæði forseta Íslands með þátttöku félagasamtaka, sveitarfélaga og fyrirtækja. Á Forvarnardaginn er lögð megináhersla á að koma því til skila sem áratugalangar rannsóknir íslenskra fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hafa sýnt að skili mestum árangri í forvörnum gegn fíkniefnum:
1. Að foreldrar og ungmenni verji sem mestum tíma saman.
2. Að börn og unglingar taki þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
3. Að ungmenni fresti því sem lengst að hefja neyslu áfengis.
Fulltrúar íþrótta- og æskulýðssamtaka og aðrir aðstandendur Forvarnardagsins munu heimsækja grunnskóla í dag og taka þátt í umræðum um aðferðir sem gagnast best í baráttunni við fíkniefni. Ungmennin takast á við spurningar í þremur flokkum og eru hvött til að koma fram með hugmyndir að samverustundum fjölskyldunnar, tillögur til íþrótta- og æskulýðssamtaka og ræða einnig frestun á áfengisneyslu.
Myndband sem sérstaklega er gert í tilefni af Forvarnardeginum verður sýnt í öllum grunnskólum. Þar flytur forseti Íslands ávarp auk þess sem upplýsingar eru veittar um heilræðin þrjú, rætt er við ungmenni og þjóðþekkt afreksfólk úr heimi íþrótta og lista flytur boðskap Forvarnardagsins.
Heimasíðan forvarnardagur.is heldur saman öllu efni er tengist Forvarnardeginum en þar er einnig að finna nýjan ratleik sem ungmenni í 9. bekk eru hvött til að taka þátt í. Dregið verður úr hópi þeirra sem senda inn réttar lausnir í ratleiknum og eru vegleg verðlaun í boði.