20. nóvember. 2007 10:31
Það eru ekki allir sem fá góð köst á síldarmiðunum í Grundarfirði, því óhöpp geta sett strik í reikninginn þegar kastað er á vondan botn. Það fengu skipsverjarnir á Huginn VE að kynnast á sunnudaginn er þeir köstuðu nótinni og fengu hana í henglum upp aftur. Þurftu þeir að leita hafnar í Grundarfirði til þess að taka nótina í landi og sauma hana saman áður en hægt væri að fara á vit ævintýranna á ný og moka upp síldinni.
Ætla má að á þessari síldarvertíð hafi rúmlega 60 þúsund tonn af síld veiðst í Grundarfirðinum og óhætt að segja að fjörðurinn hafi gefið gott í aðra hönd þótt ekki sé síldinni landað í Grundarfirði, eins og fram hefur komið.