26. nóvember. 2007 11:28
“Gagnaflutningshraði í farsímakerfi Vodafone á Vesturlandi hefur verið fjórfaldaður og er hann nú orðinn margfalt meiri en hraðinn í öðrum farsímakerfum á svæðinu,” segir Hrannar Pétursson, forstöðumaður almannatengsla Vodafone í samtali við Skessuhorn. Um 30 nýir farsímasendar hafa nú verið settir upp á Vesturlandi en endurnýjun sendanna var hluti af stærra verkefni þar sem gagnaflutningsgeta alls farsímakerfis Vodafone á landsbyggðinni var aukin til muna.
Nýju sendarnir byggja á svokallaðri EDGE tækni, sem tryggir margfaldan gagnaflutningshraða við notkun á hefðbundnum farsímum t.d. þegar símnotendur skoða tölvupóstinn sinn, vafra á netinu í farsímanum eða hala niður tónlist í símtækið sitt. “Undirbúningur verkefnisins hófst í ársbyrjun en framkvæmdin sjálf hófst í ágúst. Hún gekk vonum framar og engar kvartanir bárust frá viðskiptavinum um sambandstruflanir á meðan sendunum var skipt út. Þessi uppfærsla er mikil bylting fyrir farsímanotendur á Vesturlandi, enda nýtist farsíminn til mun margvíslegri hluta þegar gagnaflutningshraðinn hefur verið fjórfaldaður,” segir Hrannar.
“Þessi framkvæmd er liður í sókn Vodafone á landsbyggðinni þar sem við ætlum okkur stóra hluti. Vodafone hefur þegar stuðlað að samkeppni á fjarskiptamarkaði í völdum sveitarfélögum þar sem íbúar njóta nú betri þjónustu fyrir lægra verð. Okkar markmið er að gera Vodafone að öflugasta fjarskiptafyrirtæki á Íslandi,“ segir Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone.