28. nóvember. 2007 02:06
Í Norska húsinu í Stykkishólmi er verið að gera klárt fyrir jólaopnun hússins sem verður á morgun, fimmtudaginn 29. nóvember. Undirbúningurinn hófst í byrjun nóvember og veitir ekki af tímanum því jólaskrautið í húsinu eykst ár frá ári og má segja að húsið sé alskreytt frá jarðhæð og upp í ris. Til að mynda eru uppsett 25 skreytt jólatré og eru 90 ár á milli þess elsta og yngsta. Þá er gömul eftirgerð af gamla Borgarholtsbænum í Eyja- og Miklaholtshreppi og eftirgerð af gömlu kirkjunni í Stykkishólmi. Einnig má sjá jólasveinana sem stóðu í glugganum í Kaupfélaginu í Stykkishólmi og síðar í verslun Skipavíkur og sömuleiðis jólasveininn með klukkuna sem var í Hólmkjöri í áratugi, gamalt pappaskraut og aðeins yngra plastskraut.
Gömul jólakort, jólakúlur og annað jólalegt með nýrra skrauti í bland. Því má með sanni segja að í Norska húsinu ríki sannkallaður jólaandi þar sem jólastemningin er allsráðandi og er því sannkallað ævintýri fyrir börn á öllum aldri.
Krambúðin er einnig sett í jólabúninginn og ríkir þar ósvikin jólakrambúðarstemning þar sem jólaskraut er til sölu í bland við handverk, listmuni, heimagert konfekt og fleira góðgæti. Á fimmtudagskvöldum á aðventunni verða haldnir litlir markaðir þar sem fólk getur komið með og selt heimatilbúið jólagóðgæti. Í búðinni er einnig boðið upp á heitan epladrykk og piparkökur og hugsanlega má ná sér í hangikjötsflís í eldhúsinu.
Hin sérstaka jólastemning gerir ferð í Norska húsið í Stykkishólmi að ógleymanlegri upplifun á aðventunni.
Norska húsið er opið daglega á aðventunni
kl. 14.00-18.00 og auk þess á fimmtudagskvöldum kl. 20.00-22.00