29. nóvember. 2007 08:14
Bændur og hönnuðir hafa hrundið af stað nýsköpunarverkefninu Stefnumót bænda og hönnuða. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði og er stýrt af Sigríði Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun við hönnunar- og arkítektúrdeild Listaháskólans. Um er að ræða stuðning í þrjú ár, samtals tæpar 17 milljónir. Stefnumót bænda og hönnuða er frumkvöðlaverkefni þar sem tvær ólíkar starfsstéttir leiða saman hesta sína til að skapa nýjar og einstakar afurðir. Mikil sóknarfæri felast í framleiðslu matvæla á Íslandi og með markvissri nýsköpun á hráefninu er hægt að margfalda virðisaukann. Í sérstöðu og upplifun felast mikil verðmæti og er athöfnin „að borða„ að verða veigamikil í ferðamennsku samtímans og samfélögum yfirleitt. Því er markmið verkefnisins að þróa héraðsbundnar matvörur byggðar á hæstu gæðum, rekjanleika og menningarlegri skírskotun.
Nýnæmi verkefninsins felst í samstarfi hönnunarnema og bænda. Slíkt samstarf hefur ekki átt sér stað áður á Íslandi, nema í tilraunaskyni og ekki vitað til að það hafi átt sér stað áður í heiminum á þennan hátt. Því er um frumkvöðlastarf að ræða sem getur haft verulegt fordæmisgildi í öðrum löndum. Markmiðið er að afurðirnar sem verða þróaðar á næstu þremur árum skapi efnahagslegan ávinning og verði fyrirmyndir fyrir aðra bændur til að auka vægi nýsköpunar í framleiðslunni. Má gera ráð fyrir ef vel tekst til að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar gæti styrkts verulega.
Verkefnið er unnið í samstarfi við hönnunarþjónustuna Borðið, verkefnið Beint frá býli, veitingastaðinn Friðrik V á Akureyri og samstarfsaðila í Central Saint Martins háskólanum í London.