30. nóvember. 2007 09:10
Freyjukórinn í Borgarfirði undirbýr nú af krafti tónleika sem verða í Reykholtskirkju fimmtudaginn 6. desember klukkan 20. Meðal annars verða sungin valin lög af plötu Páls Óskars Hjálmtýssonar og Moniku Abendroth; “Ljósin heima.” Páll Óskar mun syngja með kórnum á tónleikunum og Monika spila undir á hörpu. Stjórnandi Freyjukórsins er Zsuzanna Budai. Freyjukórinn hefur vaxið nokkuð að undanförnu, en hann var upphaflega stofnaður árið 1990 og þá undir stjórn Bjarna Guðráðssonar. Földi virkra kórfélaga er nú um 50 og þar af nýskráðir félagar um 15 talsins. Kórfélagar hafa því aldrei verið fleiri.
Undirbúningur þessara tónleika hófst fyrir nokkru en þetta er í fyrsta sinn sem kórinn heldur svo viðamikla og dýra tónleika með færu tónlistarfólki sér til aðstoðar. Æfingar hófust 19. september í haust og var þá þegar hafist handa við undirbúning tónleikanna af krafti. Mikið hefur síðan verið um aukaæfingar. Kórfélagar hafa t.a.m. æft í Logalandi einu sinni til tvisvar í viku auk raddæfinga í Borgarnesi. Þá var farið í æfingabúðir að Langaholti á Snæfellsnesi í haust.
Freyjukórinn hlýtur styrk til tónleikanna frá Menningarráði Vesturlands.