03. desember. 2007 11:12
Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur og Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður, sem bæði eru kennarar við Brekkubæjarskóla á Akranesi, hafa gefið út nýja myndskreytta barnabók sem nefnist Bína fer í leikskóla. Einnig fylgir með bókinni Myndalottó sem er íslenskt spil fyrir tveggja til sex ára gömul börn. Efnið bókarinnar byggir á langri reynslu höfundar af því að að styrkja boðskiptafærni, bæta hegðun og efla málþroska hjá ungum börnum. Börn vita ekki alltaf hvernig þau eiga að haga sér. Í Myndalottóinu læra þau ýmislegt gagnlegt sem tengist snemmtækri íhlutun eins og undirstöðuþætti boðskipta. Bókin og Myndalottóið eru myndskreytt af Bjarna Þór Bjarnasyni myndlistarmanni. Honum tekst að glæða myndirnar í bókinni og spilinu einstöku lífi þannig að að þær höfða til barna á öllum aldri. Bókin og spilið eru gefin út af bókaforlaginu Sölku.