04. desember. 2007 12:00
„Þetta tókst virkilega vel og ég held að kynningin hafi verið mjög góð fyrir Vesturland,“ segir Þórdís Arthursdóttir sem fór í síðustu viku ásamt tveimur öðrum frá klasahópnum All Senses, samtökum nokkurra ferðaþjónustuaðila á Vesturlandi, á ferðakynningu í Liverpool. Það var markaðsmaðurinn og gamli sundkappinn af Skaganum, Ingi Þór Jónsson, sem stóð fyrir þessari ferðakynningu og menningarhátíð um Ísland í borginni, í tilefni þess að nú er í uppsiglingu mikið afmælisár í Liverpool og stendur hátiðin langt fram á næsta ár. Liverpool er 800 ára um þessar mundir og hefur af því tilefni verið tilnefnd menningarborg Evrópu á næsta ári.
Auk All Senses fólksins tóku 10 íslenskar ferðaskrifstofur þátt í ferðakynningunni, sem eins og áður segir var liður í íslenskri menningarhátíð í Liverpool. Meðal annarra skemmtu tónlistarmennirnir Pétur Ben, Mugison og Bar Fly. Ragnar Axelsson var með ljósmyndasýningu og Hafdís Benett, sem er þekktur íslenskur listamaður í Englandi, sýndi skúlptur. Fleiri íslenskir listamenn lögðu sinn skerf til menningarhátíðarinnar.