05. desember. 2007 08:38
Ungmennafélagið Íslendingur hefur sent sveitarfélaginu Borgarbyggð erindi um að byggt verði íþróttahús á Hvanneyri. Erindið hefur verið tekið til umfjöllunar í byggðarráði en engin ákvörðun tekin um málið en því vísað til tómstundanefndar. Snorri Sigurðsson á Hvanneyri er einn þeirra sem skipaður var í íþróttahússnefnd félagsins. Hann sagði í samtali við Skessuhorn að umræða um málið kæmi vegna skorts á íþróttaaðstöðu á svæðinu. „Við lögðum fram hugmynd um að byggt yrði við Ásgarð, sem er aðalbygging Landbúnaðarháskólans. Þar eru þegar búningsklefar sem nýtast fyrir sundlaug svo í raun er einungis verið að tala um byggingu á sal því búningsklefa, salerni og aðra þess háttar aðstöðu mætti ef til vill samnýta. Við teljum að þetta gæti verið lausn sem vert er að hyggja að.“
Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri sagði hugmyndina að mörgu leyti sniðuga en engin ákvörðun hefði verið tekin um málið, af eða á. „Við munum ræða við forsvarsmenn Umf. Íslendings og einnig rektor Landbúnaðarháskólans um málið. Á borðinu er þegar tillaga að uppbyggingu íþróttamannvirkja við íþróttamiðstöðina í Borgarnesi. Nokkuð sem núverandi meirihluti lofaði að gera fyrir síðustu kosningar. Einnig er áhugi meðal íbúa á Bifröst fyrir því að koma upp betri íþróttaaðstöðu þar. En það er afar jákvætt að íbúar séu með hugann við svona verk og ber að þakka það,“ sagði Páll.