06. desember. 2007 02:35
Í faðmi hárra fjalla en niður við sjó var ríki Ragnars Ólafssonar þegar hann var að alast upp. Í norðanátt voru alltaf ský á Neðribæjarnúpnum og fjaran var heillandi leiksvæði þar sem sjálfsagður fylgifiskur var að verða votur. Taugin er sterk sem dregur á heimaslóðir og verið er að gera upp húsin í dalnum góða, Selárdal. Þangað er förinni heitið í fylgd Ragnars, þar sem trillur hétu dekkbátar og enginn vegur var í næsta þorp, Bíldudal. Hann er alinn upp á bænum Króki þar sem samkomur og böll voru haldin áður en félagsheimilið var byggt ofar í dalnum. Hann er fæddur í Neðribæ, sem er staðsettur í miðjum dal en foreldrarnir flytja sig í Krók þegar hann er tveggja ára.
Á þeim tíma voru um tvöhundruð manns á svæðinu og mikið af börnum. Menn stunduðu bæði landbúnað og sjómennsku. Kindur voru á flestum bæjum og einhverjar kýr til heimilisnota. Baslið var mikið, túnin lítil sem slegin voru. Sjórinn gaf meira en landið, enda stutt á miðin. Ekkert rafmagn var í Selárdal en kaupfélag í fjöruborðinu í nokkurn tíma, sem kallað var kaupfélag Dalamanna og í nafngiftinni vísað í Ketildali eins og svæðið heitir einu nafni frá Bíldudal, enda Ketill Þorbjarnarson landnámsmaðurinn á þessum slóðum. Þarna voru mótunarár Ragnars Ólafssonar sem síðar flutti í Dalina og hefur starfað þar í áratugi.
Sjá viðtal við Ragnar Ólafsson í Skessuhorni vikunnar.