07. desember. 2007 10:10
Línubáturinn Sverrir SH strandaði við Rif í gærkvöldi. Náðu skipsverjar að losa bátinn af sjálfsdáðum af strandstað. Enginn slys urðu á mönnum við strandið. Línubáturinn Glaður SH sem er í eigu sama útgerðafélags og gerir Sverrir út kom til aðstoðar og dró bátinn til hafnar í Ólafsvík. Mikill titringur var í skrúfu Sverris og því ekki talið óhætt að báturinn sigldi fyrir eigin vélarafli til hafnar auk þess sem stýri bátsins virkaði ekki sem skyldi.
Sverrir SH var að koma úr róðri með fjögurra tonna afla er óhappið varð. Örvar Marteinsson skipstjóri sagði í samtali við Skessuhorn að hann vissi ekki hve miklar skemmdir væru á bátnum en að öllum líkindum væri einhver skemmd á skrúfu, en ekki er vitað um skemmdir fyrir neðan sjólínu. “Það kom enginn leki að bátnum og er ætlunin að taka hann upp á morgun til að athuga með skemmdir,“ sagði Örvar.