07. desember. 2007 12:18
Fyrr í vikunni fóru börn og kennarar úr Grunnskólanum í Borgarnesi upp í fólkvanginn Einkunnir fyrir ofan Borgarnes til að sækja jólatré fyrir skólann. Færst hefur í vöxt að fólkvangurinn sé nýttur af hálfu skólans til kennslu og útivistar og því vel til fundið að fara þangað til að sækja jólatré. Að sögn Hilmars Más Arasonar aðstoðarskólastjóra var farið í blíðskaparveðri og fann hópurinn gott tré sem nýtt verður á jólahátíð skólans. Hátíðin verður í íþróttahúsinu þann 20. desember. Verður þá dansað í kringum jólatréð sem að sjálfsögðu mun vera orðið fagurlega skreytt. Hilmar sagði enn fremur að ferðin hefði verið hin ánægjulegasta og stefnt væri að því að gera þetta að árlegum viðburði héðan í frá.