07. desember. 2007 01:42
Í síðustu viku veittu skólastjórar leikskólanna á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit móttöku fullkomnum ljósmyndaprenturum sem tölvuþjónustufyrirtækið Omnis gaf til skólanna. Forsvarsmenn Omnis vilja með þessari gjöf styðja við það starf sem unnið er í leikskólunum og um leið er þetta liður í kynningu á fyrirtækinu og þeirri þjónustu sem það stendur fyrir. Helga Gunnarsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs Akraneskaupstaðar færði þeim Omnismönnum þakkir þegar leikskólastjórarnir veittu gjöfunum viðtöku. Þakkaði hún allan hlýhug og gjafir sem styddu við það fjölbreytta og mikilvæga starf sem unnið væri í leikskólunum.