13. desember. 2007 09:54
 |
Leyfar skemmunnar við Vesturgötu |
Óveðrið í nótt gerði usla bæði á Akranesi og í Borgarnesi. Í Borgarnesi fauk hluti húsþaks við Egilsgötu og skemmdir urðu á 11 bílum í götunni. Þakið á Bónusbyggingunni við Digranesgötu var farið að losna og þurfti að fergja það með stórri gröfu. Rúða brotnaði á efstu hæð nýbyggingar Sparisjóðs Mýrasýslu við sömu götu, en það olli engum skaða innanhúss. Talið er líklegt að steinn hafi fokið í rúðuna. Þá fuku vinnupallar frá nýbyggingu við Rauðatorgið svokallaða í Borgarnesi.
 |
Við Egilsgötu í Borgarnesi í morgun |
Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn í Borgarnesi segir að veðrið um nóttina hafi verið heldur vestanstæðara og líklegra öllu verra en aðfararnótt þriðjudagsins í síðustu viku. Björgunarsveitin Brák sinnti um 40 verkefnum eða 10 fleiri en í hvellinum fyrr í vikunni. Mest var þetta smávægilegt fok út um allan bæ, hlutir sem höfðu losnað og farið af stað í veðrinu.
Staðið í ströngu á Akranesi
Á Akranesi stóð Björgunarfélag Akraness vaktina ásamt lögreglu og stóðu þessir aðilar í ströngu við að bjarga því sem hægt var að bjarga. Bárujárnsplötur víðsvegar um bæinn voru fergðar niður og ýmsir lausamunir eins og fiskikör og ruslatunnur eltir uppi og festir. Um tvöleitið fauk söluskúr ÍA á Jaðarsbökkum. Hann tókst á loft í einni hviðunni og fór þjrár veltur áður en hann staðnæmdist á bifreiðaplani. Björgunarsveitarmenn og lögregla fergðu brak úr honum og "ströppuðu" skúrinn fastann.
Um þrjúleitið tókst 300 fm skemma sem geymd var á vinnusvæði við Vesturgötu á loft og fauk tugi metra áður en hún lenti. Hún var svo fest niður af björgunarsveitarmönnum þar sem hún lenti. Kanski óþarft að taka fram að skemman er ónýt eftir flugið.
Þá urðu bátar í höfninni fyrir tjóni og var unnið við það í nótt að festa þá betur og eins þá sem stóðu uppi á landi. Um fjögurleitið splundraðist kerrugeymsla við verslunina Krónuna og skilti fauk af verslun BT í sömu verslunarmiðstöð. Skömmu síðar fóru björgunarsveitarmenn að hesthúsunum við Æðarodda en þar hafði hluti þaks fokið af og þakplötur voru lausar á öðru þaki.
“Aðeins fátt hefur hér verið talið en skráð verkefni hjá Björgunarfélaginu voru um 40 og um 20 hjá lögreglu. Lögreglumenn sem stóðu vaktina tóku fram að þau hafi þó verið mun fleiri. Tími gafst einfaldlega ekki til að bóka í nótt.
Björgunarfélagsfólki verður seint fullþökkuð þeirra aðstoð. Ljóst er að vinna þeirra og lögreglu í nótt varð til þess að miklum verðmætum var bjargað og tjón lágmarkað þar sem það varð,” sagði Jón S Ólason, yfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn. Hann segir að við þessi störf leggi björgunarfólk sig í hættu fyrir aðra við erfiðar aðstæður og oftar en ekki um miðja nótt eins og í þessu tilfelli. “Það verður líka að teljast dálítið merkilegt að fæstir sem njóta góðs af láta svo lítið að þakka fyrir sig en í samtali lögreglu við formann björgunarfélagsins í morgunsárið kom fram að fátítt er að þeir heyri nokkuð frá þeim sem félagsmenn aðstoða,” sagði Jón. Hann bætir því við að lögreglan vilji hinsvegar koma á framfæri bestu þökkum til þeirra tólf björgunarfélagsmanna sem voru að störfum á fjórum bílum í nótt. “Við gerum okkur fulla grein fyrir því að án þeirra aðstoðar hefði ástandið farið algjörlega úr böndunum og ekkert ráðist við neitt. Við gerum okkur einnig fulla grein fyrir því að það er meira en að segja það að vera rifinn fram úr rúminu og út í óveðrið til að slást við fjúkandi bárujárnsplötur og það oft á meðan eigendurnir sofa værum svefni.”
Björgunarsveitir og lögreglan er enn í viðbragðsstöðu en samkvæmt upplýsingum frá spádeild Veðurstofu er rétt að búast við öðru eins áhlaupi síðar í dag og svo aftur á sunnudag.