19. desember. 2007 02:01
Finnska olíuskipið Pavla leggur úr höfn í Hvalfirði í dag. Skipið hefur verið veðurteppt í Hvalfirði síðan á miðvikudagsmorgun í síðustu viku þar sem ekki hefur viðrað til að ljúka losun skipsins. Skipið kom hingað til lands með ríflega 30.000 tonn af bensíni sem geymt verður í tönkum Olíudreifingar í Hvalfirði fram á vor. Bensínið er í eigu finnskra aðila sem ætla að geyma það þar til salan á bensíni eykst að nýju en hún er mest á sumrin.
Olíudreifing er að markaðssetja tankana í Hvalfirði sem eldsneytisbirgðageymslu á alþjóðlegum vettvangi og hefur fengið útgefið starfsleyfi fyrir þá starfsemi. Hreppsnefnd Hvalfjarðarsveitar gerði athugasemdir við starfsleyfið og vísar til umsagnar Umhverfis- og náttúruverndarnefndar sveitarfélagsins en nefndin hefur áhyggjur af breyttu rekstrarumhverfi olíubirgðastöðvarinnar á Litlasandi.
Í umsögninni segir: "Bensín hefur aðra eiginleika en olía og er t.a.m. mun rokgjarnara efni. Þá er stöðin komin til ára sinna og hefur lítið verið haldið við."
Nefndin hefur einnig áhyggjur af því að botnar olíugeymanna séu ekki nógu traustir og því mengunarhætta mikil.
Ruv.is greinir frá