20. desember. 2007 07:47
Alþingi hefur samþykkt lög um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna sem fela í sér að svonefnt viðbótarframlag sveitarfélaga til Fasteignamats ríkisins (FMR) hækkar og verður 0,007% af heildarfasteignamati í viðkomandi sveitarfélagi í stað 0,0056%. Í frumvarpi sem fjármálaráðherra mælti fyrir á Alþingi var gert ráð fyrir að um varanlega hækkun yrði að ræða. Því mótmælti Samband íslenskra sveitarfélaga harðlega í umsögn til efnahags- og skattanefndar og vísaði sambandið til fyrirvara sem fulltrúi þess í starfshópi sem skilaði skýrslu um framtíðarfyrirkomulag fasteignamats gerði við álit starfshópsins.
Sambandið benti meðal annars á að framlög sveitarfélaga til FMR hafa hækkað mikið undanfarin ár vegna hækkunar fasteignamats og fjölgunar fasteigna. Telur sambandið eðlilegra að gerður verði þjónustusamningur við FMR um þá þjónustu sem stofnunin veitir sveitarfélögunum. Með því móti mætti koma í veg fyrir að framlag sveitarfélaga hækki langt umfram kostnað FMR við að veita þjónustuna.
Í áliti efnahags- og skattanefndar Alþingis um frumvarpið er að verulegu leyti tekið undir sjónarmið sambandsins. Lagði nefndin til að hækkunin gilti aðeins til bráðabirgða í eitt ár gagnvart sveitafrfélögunum og er í álitinu vísað til þess að gerðir verði samningar um stór verkefni eða sett reglugerð um þjónustugjöld. Í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að í ljósi þeirrar niðurstöðu megi vænta þess að fljótlega verði teknar upp viðræður milli Fasteignamats ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framtíðarfyrirkomulag þeirrar þjónustu sem FMR veitir sveitarfélögunum og gjaldtöku fyrir þá þjónustu.