21. desember. 2007 09:22
Nýr bátur, Grindavíkin GK 606 kom til heimahafnar í Ólafsvík fyrr í vikunni. Kaupandi bátsins er Breiðavík ehf sem er í eigu þeirra feðga Þorsteins og Bárðar Guðmundssona. Grindavíkin GK, sem mun fá nafnið Kristinn SH, er smíðaður í Kína árið 2001 og er 94,5 brúttólesta, yfirbyggður stálbátur. Seljandi er útgerðarfélagið Víkurnes frá Grindavík. Mun Kristinn verða gerður út á línu með vorinu, en á næstunni verður farið með bátinn í slipp þar sem hann verður málaður og gerður klár til línuveiða.
Fyrir á útgerðin tvo minni línubáta sem fyrirhugað er að selja. Bárður Guðmundsson segir að fjórir menn verða í áhöfn bátsins og verður gert út frá Ólafsvík og Skagaströnd, eða bara þar sem aflinn er bestur hverju sinni. “Við keyptum 15 tonna skötuselskvóta með bátnum svo hann verður einnig gerður út til þeirra veiða. Þessi bátur fer mun betur með áhöfn en minni báturinn, enda talsvert stærri og öflugri.” Bárður segir að hjá útgerðinni starfi 17 manns og þar af 10 sem sjá um beitningu í landi.