21. desember. 2007 02:54
Óvenjulega mörg börn fæddust í Reykhólahreppi á þessu ári. Þau voru sjö talsins en á árinu á undan fæddust aðeins þrjú börn í hreppnum. „Við erum mjög ánægð og finnst þetta gott í ekki stærra samfélagi,“ segir Ingibjörg Þór á skrifstofu Reykhólahrepps, en við síðasta íbúatal fyrir ári voru íbúar Reykhólahrepps 250. Ingibjörg segir að nú standi reyndar vonir til þess að íbúatalan fari yfir 260, vegna þessarar fjölgunar í fæðingum og síðan hafi ungt fólk verið að flytja í sveitina. „Það er bara bjartsýni og uppsveifla hjá okkur. Nýlega var byrjað að byggja hérna bæði einbýlishús og parhús. Í sumar flutti ungt fólk inn í tvö nýbyggð einbýlishús og eitt einbýli í viðbót var tekið í notkun á síðasta ári. Þannig að þetta lítur bara vel út,“ sagði Ingibjörg Þór.