27. desember. 2007 11:15
Skömmu fyrir jól fékk Bókasafn Snæfellsbæjar góða gjöf þegar því var afhent til eignar tvö bindi af Sjómannadagsblaði Snæfellsbæjar frá upphafi. Það var Pétur Steinar Jóhannsson ritstjóri Sjómannadagsblaðsins sem afhenti gjöfina. Að sögn Péturs er tilefnið það að á þessu ári eru liðin 20 ár frá því að fyrsta blaðið var gefið út. Fyrra bindið hefur að geyma blöð frá árinu 1987 til 1999 og í hinu síðara eru blöðin frá árinu 2000 til 2005. Bindin eru í fallegu bandi og er verkið unnið af Páli Halldórssyni fv. þyrluflugmanni.
Í blöðunum er ýmiss fróðleikur um sjómennsku, fiskvinnslu og fleira í Snæfellsbæ og nágrannasveitarfélögum á Snæfellsnesi. Það var Fríða Sveinsdóttir bókasafnsvörður sem veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði hún fyrir hönd Bókasafnsins.