28. desember. 2007 08:29
„Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsir yfir áhyggjum sínum af miklum eldsneytisflutningum um Hvalfjörð og kallar eftir viðbragðsáætlun Olíudreifingar til að taka á hugsanlegri hættu vegna bráðamengunar. Það er skýlaus krafa sveitarstjórnarinnar að svæðið verði undir stöðugri vakt af vaktmanni á staðnum.“ Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lagði fram svohljóðandi bókun á fundi sínum fyrir skömmu, þegar tekið var fyrir erindi frá Umhverfisstofnun, starfsleyfi sem gefið var út 7. desember sl. fyrir olíubirgðastöð Olíudreifingar í Hvalfirði.
Gestur Guðjónsson, umhverfis- og öryggisfulltrúa hjá Olíudreifingu segir að þessi ályktun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sé óskiljanleg, þar sem að hún sé búin að veita framkvæmdaleyfi fyrir stöðinni og hafi verið kynnt öll öryggismál er hana verðar. Viðbragðsáætlun gagnvart hugsanlegri hættu vegna bráðamengunar liggi fyrir og það muni ekki standa á því að sveitarstjórn fái hana, sendi hún erindi þar sem óskað sé eftir henni. Gestur segir að hvergi sé það tekið fram í reglugerð að þeim beri að senda þessi gögn til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar. „Það er alls ekki í takt við eðlilega stjórnsýsluhætti hvernig sveitarstjórnin hefur unnið. Okkar starfsemi er inn á skipulagi og við höfðum veitt allar upplýsingar í té, þannig að okkur finnst að það hafi verið komið aftan að okkur í þessu máli,“ segir Gestur Guðjónsson hjá Olíudreifingu.