28. desember. 2007 11:25
Þessi myndarlegi snjókarl mætir vegfarendum sem leið eiga um Túnbrekkuna í Ólafsvík þessa dagana. Hafa ófáir gestir lagt leið sína til þess að skoða gripinn enda mikið í hann lagt. Vagn Ingólfsson byggingarmeistari karlsins sagði í samtali við Skessuhorn að hann hafi ekkert betra haft við tímann að gera um hátíðirnar en að dunda sér við að búa karlinn til ásamt dætrum sínum þeim Dagnýju og Snædísi. “Það tók langan tíma að gera þetta en mér finnst þetta skemmtilegt verkefni. Þessi snjókarl er ríflega eins og körfuboltamaður á hæð, svona 2,20 metrar, en líkist þó meira japönskum glímukappa í vaxtarlaginu,“ bætti Vagn við.