31. desember. 2007 11:55
Lögreglan á Akranesi handtók þrjá ökumenn í vikunni grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna. Aðrir þrír eru grunaðir um ölvun við akstur. Í samantekt frá lögreglunni á Akranesi kemur fram að í dag, á síðasta degi ársins, hafa á Akranesi samtals 41 ökumaður verið handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og 48 vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna á árinu. Til samanburðar þá voru 40 grunaðir um ölvun við akstur árið 2006 og 4 grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Akstur undir áhrifum fíkniefna hefur þannig hvorki meira né minna en tólffaldast á milli ára.