31. desember. 2007 01:36
Vegna veðurs hefur verið tekin ákvörðun um að aflýsa brennu, svonefndri Víðigrundarbrennu, sem vera átti í kvöld á Akranesi. Gera má ráð fyrir sterkum vindi og afar óhagstæðri vindátt þannig að ekki þótti þorandi að kveikja í. Það verður því engin brenna á Akranesi þessi áramótin. Það voru lögregla, slökkvilið og brennustjóri sem tóku ákvörðun um að aflýsa brennunni nú upp úr hádeginu. Fyrr í dag sögðum við frá því að brennu í Stykkishólmi hafi verið aflýst. Ekki hafa borist fregnir af frestun áramótabrenna víðar á Vesturlandi.